Flóðahætta ef sprungan færist

Vel er fylgst með Markarfljóti en þar hefur ekki komið hlaup síðan síðdegis í gær. Viðbragðsaðilar hafa áhyggjur af því hve langt líður nú á milli hlaupa og því gæti verið von á stóru hlaupi.

„Það kom smáspýja seinniparinn í gær og samkvæmt útreikningum vísindamanna er ekki komið nema 15-20% af því hlaupvatni sem von er á,“ sagði Baldur Ólafsson, í svæðisstjórn björgunarsveita, í samtali við sunnlenska.is nú síðdegis.

„Jarðfræðingar eru á leið innúr núna en það er allt þurrt eins og er og það kemur engin væta úr gígnum núna. Gígurinn er orðinn það djúpur og einangraður með gjósku að gosið er hætt að bræða í kringum sig. Mesta hættan er ef sprungan færist til. Þá gæti eitthvað stórt gerst,“ sagði Baldur.

Fyrri greinBjarni Harðar: Fátækt og skuldabasl á Íslandi
Næsta greinStórsigur Selfosskvenna í Grafarvogi