Fljúgandi start í Svíþjóð

Undanfarna mánuði hefur Ölvisholt Brugghús undirbúið framleiðslu sérstakra húsbjóra fyrir veitingastaði í Svíþjóð.

Undirritaður var samningur um þann fyrsta sem nú þegar er kominn á markað á veitingastaðnum Sorbon í Stokkhólmi. Sorbon hefur skapað sér góðan orðstír fyrir gríðargott úrval bjórtegunda og eru með rúmlega 400 bjórtegundir á bjórseðli sínum.

Forsaga málsins er sú að eigendur staðarins Sorbon heimsóttu Ölvisholt í byrjun febrúar 2011. Þeir hafa um nokkurt skeið haft fjórar tegundir bjórs frá Ölvisholti í sölu við frábærar undirtektir viðskiptavina. Sú hugmynd kviknaði að Ölvisholt myndi framleiða sérstakan húsbjór fyrir þá.

Niðurstaðan varð svo bjór sem ber nafnið Sorbon X sem er amerískt þurrhumlað ljósöl með Cascade og Amarillo humlum en slíkir bjórar njóta mikilla vinsælda í Svíþjóð.

Fyrsta sending fór á kranana hjá Sorbon fyrir stuttu og var mikil eftirvænting meðal viðskiptavina. Til gamans má geta að fyrsti 30 lítra kúturinn kláraðist á 8 mínútum. Er því óhætt að segja að Ölvisholt Brugghús hafi fengið fljúgandi start í byrjun.

Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem íslenskt brugghús ræðst í slíka framleiðslu fyrir erlenda aðila og hafa nú þegar þrír veitingastaðir til viðbótar lýst yfir áhuga á að láta ÖB framleiða fyrir sig sérstakan húsbjór.

Sölustjóri Wickedwine var einnig viðstaddur undirritunina og var haft eftir honum að sérstakt gleðiefni væri fyrir Wickedwine sem umboðsaðila í Svíþjóð, að geta tekið þátt í jafn metnaðarfullri uppbyggingu á vörumerkjum Ölvisholts og fullyrti að framtíðin væri ákaflega björt fyrir vörur þess á sænska markaðnum.

Samskip hafa staðið þétt með eigendum og starfsfólki ÖB í þessari uppbyggingu og var við þetta tækifæri einnig undirritaður samstarfssamningur milli Samskipa og ÖB Guðjón Þorsteinn Guðmundsson, viðskiptastjóri var viðstaddur fyrir hönd Samskipa en að hans sögn hefur verið einstaklega gleðilegt að fylgjast með fyrirtækinu vaxa og ná fótfestu á markaði með framleiðslu sína.

Fyrri greinGekk illa brunninn til byggða
Næsta greinLeikskólarnir við ströndina sameinaðir