Fljúgandi furðuhlutur yfir Suðurlandi

Furðuhluturinn fljúgandi sem sást yfir Suðvesturhorninu í kvöld. Ljósmynd/Haraldur Björnsson

Torkennilegt ljós sást á himni yfir Suðurlandi laust fyrir klukkan tíu í kvöld.

RÚV greindi fyrst frá þessu og birtir myndband af þessum fljúgandi furðuhlut sem tekið er í Þorlákshöfn.

Veðurstofan hefur fengið tilkynningar um ljósagang á himnum yfir Vestmannaeyjum og samkvæmt lýsingu er þar um sama hlutinn að ræða.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is sást ljósið einnig yfir höfuðborgarsvæðinu en myndina sem fylgir fréttinni tók Mýrdælingurinn Haraldur Björnsson í Árbænum. Hann fylgdist með ljósinu í góðar fimm mínútur áður en það hvarf upp í himingeiminn.

Sjónarvottar sem hafa haft samband við sunnlenska.is segja að ljósið hafi liðið rólega og algjörlega hljóðlaust eftir himninum.

UPPFÆRT KL. 23:55 Samkvæmt Aftonbladet sást ljósið víða í Svíþjóð og telur geimvísindamaðurinn Eric Stempels að þarna sé á ferðinni geimflaugin Atlas V sem skotið var á loft frá Vandenberg geimherstöðinni í Kaliforníu í Bandaríkjunum í kvöld en flauginni er ætlað að koma gervitunglinu Landsat 9 á braut um jörðu.

Fyrri greinSelfoss/Hamar/Ægir bikarmeistari í 3. flokki karla
Næsta greinAllt upp á tíu í Suðurkjördæmi