Fljúgandi furðuhlutur sveimaði yfir Hellu

Einhverjir íbúar og vegfarendur á Hellu hafa mögulega orðið varir við óþekkt fljúgandi fyrirbæri sveimandi yfir Helluþorpi um hádegisbil miðvikudaginn 28. ágúst síðastliðinn.

Fyrirbærið var fjarstýrð flugvél af gerðinni Gatewing X100 frá framleiðandanum Trimble. Vélin var á vegum Verkfræðistofu Suðurlands en stofan var að taka loftmyndir af svæðinu við Rangárflatir vegna fyrirliggjandi vegaframkvæmda þar. Einnig voru teknar þéttbýlismyndir af Hellu í 300 metra hæð.

Frá þessu er sagt á heimasíðu Rangárþings ytra.

Vélin er með um eins metra vænghaf og er tvö kílógrömm að þyngd. Burður vélarinnar er úr styrktu frauðplasti og koltrefjum. Rafmótor er notaður til að knýja vélina áfram en hún nær hún 80 – 100 km. hraða og hægt er að nota vélina í 100 – 700 metra hæð. Vélin er forrituð til að fljúga yfir ákveðin svæði og er flughæð og þéttleiki mynda valinn eftir því hvaða nákvæmni er þörf á. Í vélinni er myndavél sem tekur myndir lóðrétt eftir því sem hugbúnaðurinn segir til um.

Kort eru unnin í sérstökum hugbúnaði sem tengir allar myndirnar saman og býr til þrívíddar yfirborð. Myndirnar eru staðsettar í hnitakerfi með ákvörðunarpunktum á jörðu sem sjást á loftmyndunum og eru mældir inn með GPS-landmælingatækjum. Nákvæmni sem fæst með þessu er allt að 5 cm í plani og 7-10 cm í hæð.

Fyrri greinSelfoss tapaði baráttunni í bleytunni
Næsta greinKynntu sér fráveitumál í Rangárþingi ytra