Flestir Hvergerðingar fæddir árið 1950

Fjölmennasta árgangi Hveragerðisbæjar, sem í nokkuð mörg ár hefur verið fæddur árið 1989, hefur nú verið velt úr sessi af árgangnum fæddum árið 1950 og búa nú jafnmargir í þessum tveimur árgöngum í Hveragerði, eða 47 manns.

Þetta kemur fram í pistli Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, á heimasíðu bæjarins.

Hefur fólki sem fætt er árið 1950 fjölgaði um þrjá frá fyrra ári en þeim sem fædd eru 1989 hefur aftur á móti fækkað um einn. Þeir árgangar sem næstir koma eru fæddir 1957 og 1964 en 43 í hvorum árgangi eru búandi í Hveragerði. Þar á eftir er svo fólk fætt 1951 og 1996 með 41 einstakling í hverjum árgangi.

Árið 2017 fæddust 19 börn í Hveragerði sem er óvanalega lítið en til samanburðar má geta þess að árið 2016 fæddust hér í bæ 28 börn.

Elstur Hvergerðinga er Friðrik Marteinsson sem fæddur er árið 1921 og verður hann 97 ára í nóvember 2018. Næst elst er Fjóla Ólafsdóttir sem fædd er ári síðar eða 1922 en þriðji elsti Hvergerðingurinn er Guðjón Kr. Pálsson sem fæddur er árið 1924. Fimmtán Hvergerðingar eru komir yfir nírætt.

Samkvæmt óstaðfestum upplýsingum úr þjóðskrá eru íbúar í Hveragerði nú 2.564 en þeir voru 2.483 fyrir 12 mánuðum. Er þetta aukning um 81 íbúa eða 3,3% sem er langt umfram landsmeðaltal, að sögn Aldísar.

Fyrri greinFjöldahjálparstöð opnuð í Vík
Næsta greinFjárframlög til stofnunarinnar fylgja ekki vaxandi þörf