Flestir fylgjandi því að kosið verði um sameiningu

Verkefnishópur Sveitarfélagsins Suðurlands hefur lagt til við sveitarstjórnir Ásahrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps að hafnar verði formlegar sameiningarviðræður sem lýkur með því að íbúar kjósa um sameiningu sveitarfélaganna á næsta ári.

Sveitarstjórnirnar munu fjalla um tillöguna á fundum sínum í desember og taka endanlega ákvörðun.

Í viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir gerðu meðal íbúa þeirra fimm sveitarfélaga sem eiga aðild að Sveitarfélaginu Suðurlandi reyndust 69% þeirra sem tóku afstöðu hlynnt því að sveitarfélögin taki upp formlegar sameiningarviðræður sem enda með íbúakosningu, en um 16% andvíg.

Í fjórum sveitarfélaganna er meirihluti svarenda fylgjandi viðræðum, en meðal íbúa Ásahrepps er nánast jöfn skipting á milli þeirra sem eru hlynntir og þeirra sem eru andvígir. Þátttakendur í könnuninni voru 877, eða um 20% íbúa svæðisins 18 ára og eldri.

Megintilgangur könnunarinnar var að kanna viðhorf íbúa til þess að sveitarfélögin fimm hefji formlegar viðræður sem endi með því að íbúar greiði atkvæði um tillögu um sameiningu. Hæst er hlutfall þeirra sem segjast mjög eða frekar hlynntir áframhaldandi viðræðum í Mýrdalshreppi (76%) en lægst í Ásahreppi (41%).

Spurning:
Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því að Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangár­þing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur taki upp formlegar sameiningarviðræður sem myndu enda með íbúakosningu?
Svör:Mjög hlynnt(ur)Frekar hlynnt(ur)Hvorki néFrekar andvíg(ur)Mjög andvíg(ur)
Ásahreppur9%32%17%31%12%
Rangárþing ytra40%24%15%9%12%
Rangárþing eystra40%32%18%4%7%
Mýrdalshreppur34%42%12%9%2%
Skraftárhreppur34%41%17%2%5%

Viðhorf íbúa til þess að sameinast öðrum sveitarfélögum
Þegar spurt var um viðhorf til sameiningar þess sveitarfélags sem svarendur eru búsettir í reyndust íbúar Skaftárhrepps jákvæðastir fyrir sameiningu, en 73% svarenda í hreppnum sögðust mjög eða frekar hlynntir sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög. Í Rangárþingi ytra og í Mýrdalshreppi var hlutfallið 62% en í Rangárþingi eystra var það 56%. Í Ásahreppi segjast 61% svarenda vera frekar eða mjög andvígir sameiningu og aðeins um 21% mjög eða frekar hlynntir.

Spurning:
Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því að sveitarfélagið þitt sameinist öðru sveitarfélagi eða sveitarfélögum?
 Mjög hlynnt(ur)Frekar hlynnt(ur)Hvorki néFrekar andvíg(ur)Mjög andvíg(ur)
Ásahreppur5%16%18%35%26%
Rangárþing ytra31%31%24%6%9%
Rangárþing eystra29%27%28%7%9%
Mýrdalshreppur24%38%19%16%3%
Skraftárhreppur32%41%9%8%10%

Konur voru marktækt jákvæðari fyrir sameiningu en karlmenn, en 61% þeirra sögðust frekar eða mjög hlynntar sameiningu á móti 57% karla. Hlutfall karla sem sögðust andvígir sameiningu er 22% en 16% kvenna sögðust mjög eða frekar andvígar sameiningu.

Þekking á verkefninu „Sveitarfélagið Suðurland“
Í könnuninni voru svarendur m.a. spurðir hvort þeir hefðu kynnt sér verkefnið „Sveitarfélagið Suðurland“ og reyndust 42% svarenda hafa gert það með einum eða öðrum hætti. Þeir sem höfðu kynnt sér verkefnið voru marktækt hlynntari því að sameinast öðru sveitarfélagi eða sveitarfélögum en þeir sem ekki höfðu kynnt sér verkefnið. Af þeim sem það höfðu gert voru 72% mjög eða frekar hlynntir sameiningu en 49% þeirra sem ekki höfðu kynnt sér verkefnið. Einn af hverjum fimm sem höfðu ekki kynnt sér verkefnið var andvígur en um einn af hverjum sex sem höfðu kynnt sér verkefnið.

Fyrri greinAuglýst eftir tilnefningum til menntaverðlaunanna
Næsta greinAllar verslanir Krónunnar Svansvottaðar