Flestir á hraðferð á Suðurlandsvegi

Lögreglan að störfum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Fjórir einstaklingar sem lögreglan á Suðurlandi stöðvaði við akstur í síðustu viku eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna.

Þrír þeirra voru á ferðinni í Árnessýslu en einn á Höfn í Hornafirði.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna í liðinni viku. Tveir ökumenn reyndust vera með útrunnin ökuréttindi og aðrir tveir urðu uppvísir af því að nota ekki ökumannskort í ökurita bifreiða sinna.

Þá voru 29 ökumenn kærðir fyrir að aka bifreiðum sínum of hratt í liðinni viku. Flestir á Suðurlandsvegi en einnig allnokkrir á aðliggjandi stofnvegum, svosem á Biskupstungnabraut.