Flestir á góðum batavegi

Verulega hefur dregið úr tíðni nóróveirusýkinga hjá bresku og bandarísku skátahópunum sem fluttir voru frá Úlfljótsvatni í fjöldahjálparstöðina í Hveragerði á fimmtudagskvöld.

Einungis þrír einstaklingar hafa veikst síðan í gærkvöldi. Flestir eru á góðum batavegi og í morgun höfðu aðeins átta einstaklingar verið með meltingareinkenni síðustu 8 klst. og þar af voru fjórir einstaklingar sem eru enn með einkenni af þeim 71 alls sem hafa veikst.

Enn eru 66 einstaklingar í fjöldahjálparstöðinni og verið er að vinna að því að finna þeim góða aðstöðu til að dvelja í næstu daga. Nokkrir eru þegar farnir til síns heima erlendis samkvæmt sinni ferðaáætlun, en síðustu hóparnir eiga samkvæmt plani að halda af landi brott á miðvikudag.

Fjöldahjálparmiðstöð verður áfram opin eins lengi og þurfa þykir og er fyrirhugað að sú starfsemi verði í hluta húsnæðis Grunnskólans í Hveragerði fram á mánudag ef þarf. Þegar er byrjað að sótthreinsa hluta skólans með það í huga að starfsemi geti hafist þar á þriðjudag.

Fyrirhugaður er stuttur stöðufundur viðbragðsaðila kl. 17 í dag.

Fyrri greinNemar á Suðurlandi fá frían mánuð í Strætó
Næsta greinSíðustu skátarnir útskrifaðir