Flest slysin við Litlu kaffistofuna

Draugahlíðarbrekka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hættulegasti staðurinn í íslenska vegakerfinu síðustu fimm ár er Þjóðvegur 1 framhjá Litlu kaffistofunni.

Á 4,4 km kafla á þessu svæði urðu 106 slys og óhöpp og þar af voru 31 slys með meiðslum síðastliðin fimm ár. Reikniaðferð þessarar tölfræði er fjöldi slasaðra miðað við lengd vegkafla og er þessi staður umtalsvert verri en næsti kafli þar á eftir.

Þetta kemur fram í Tilliti, fréttablaði Umferðarstofu.

Í blaðinu kemur einnig fram að fjöldi látinna í umferðinni árið 2010 var átta og hafa ekki verið færri síðan árið 1968. Til samanburðar við hin Norðurlöndin er fjöldi látinna í umferðinni árið 2010 lægstur hér á landi.

Fjöldi alvarlegra slysa og alvarlega slasaðra eykst hinsvegar mikið og er árið 2010 með því versta sem verið hefur í langan tíma. Alvarlega slösuðum fjölgar úr 170 í 205 eða um 21% og hafa alvarlega slasaðir ekki verið jafnmargir síðan árið 1999.

Árið 2010 varð ekkert banaslys í umdæmi lögreglunnar á Selfossi og þarf að leita aftur til ársins 1999 til að finna sambærilegt ár. Sömuleiðis urðu ekki banaslys í umdæminu árin 1982 og 1992.

Fyrri greinÞrjár bílveltur í umdæminu
Næsta greinLandeyjahöfn líklega opnuð fyrir 1. apríl