Flest lón komin á yfirfall

Lónsstaða á miðlunarsvæði Landsvirkjunar í Þjórsá er góð um þessar mundir að sögn Daða Viðars Loftssonar hjá Landsvirkjun.

Flest lón eru í hámarki og gott innrennsli hefur verið í lónin í sumar. Að sögn Daða hefur óvenju miklu vatni verið veitt framhjá í sumar sem sýnir glögglega öflugan vatnsbúskap.

Undanfarið hefur heldur verið að kólna í veðri og því hefur verið dregið úr yfirfallinu. Daði sagði að meira jafnvægi hefði verið í yfirfallið í sumar en oft áður, meðal annars vegna stöðugst innrennslis.

Eins og áður segir eru flest lón komin á yfirfall en Þórisvatni hefur þó verið haldið lítillega fyrir neðan hámark. Að sögn Daða er það vegna Búðarhálsvirkjunar og vinnu á því svæði. Þá hefði mönnum þótt ástæða til að eiga borð fyrir báru ef nýtt skot kæmi eins og átti sér stað í ánni Sveðju á síðasta sumri.