Fleiri fullorðnir hjóla

„Fólk hjólar meira en það gerði áður fyrr og er að kaupa sér fínni hjól því að það ætlar sér að nota þau meira,“ segir Helgi Jósepsson, verslunarstjóri í Hjólabæ á Selfossi.

„Þetta er eins og með góða skó, þú notar það sem er gott,“ segir Helgi en núna er mesti annatíminn hjá hjólreiðaverslunum að hefjast.

Helgi segir að svo virðist sem börn og unglingar hjóli minna en áður. „Síðastliðin þrjú ár hefur hjólreiðanotkun fullorðinna stóraukist á meðan salan á barnahjólum hefur minnkað. Fólk hjólar þó á öllum aldri. Í fyrrasumar keypti til dæmis maður á níræðisaldri hjá mér hjól. Hann ætlaði einfaldlega að fara að hreyfa sig meira,“ segir Helgi.

Aðspurður um hjálmanotkun segir Helgi að hún hafi einnig aukist hjá fullorðnum. „Eftir að hjálmar fóru að vera fínni og úrvalið varð meira varð salan einnig meiri,“ segir Helgi og bætir því við að fínni týpur af hjálmum séu vinsælastar.

Að sögn Helga eru konur ívíð duglegri að hjóla en karlar. „Svokölluð dömureiðhjól, eða hjól þar sem maður getur setið uppréttur hafa verið vinsæl síðustu tíu ár. Hybrid hjól, eða svokallaðir blendingar, eru líka að verða vinsælli en það eru hjól sem eru blanda af fjallahjólum og götuhjólum,” segir Helgi að lokum.

Fyrri greinHagnaður Sveitarfélagsins Árborgar yfir væntingum
Næsta greinRæða við Guðmund um þriðja bindið