Fleiri einingar töpuðust en á síðustu haustönnum

Nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands voru 1.016 við upphaf haustannar í ágúst síðastliðnum. Þeir lögðu upp með 17.449 einingar en undir lok annar höfðu nemendurnir staðist 13.693 einingar.

Það þýðir að rúmlega 21,5% eininganna höfðu tapast á önninni og er það slakari árangur en á síðustu haustönnum.

Haustið 2010 var þessi tala tæplega 19% og haustið 2011 nákvæmlega 20%. „Námsárangur í dagskóla, samkvæmt þessum tölum er því ekki eins góður og á síðustu haustönn. Það er ljóst að við þurfum öll að leggjast á árar og reyna að bæta árangur nemenda,“ sagði Þórarinn Ingólfsson, aðstoðarskólameistari, þegar hann flutti 63. annarannál skólans við brautskráningarathöfnina í gær.

Í máli Þórarins kom fram að aðsókn í verknám hefur aukist og voru alls 96 nemendur skráðir í verknámið við upphaf annar. Þar af voru tíu nemendur í söðlasmíði sem nú var kennd á nýjan leik eftir nokkurt hlé. Fsu er eini skólinn á landinu sem kennir söðlasmíði og hefur Guðmundur Árnason söðlasmíðameistari séð um kennslu faggreina.

Á starfsbraut voru sextíu nemendur skráðir til náms en í Fsu er fjölmennasta starfsbrautin á landinu. Starfsbrautin er ætluð nemendum sem hafa notið umtalsverðrar sérkennslu í grunnskóla og hafa ekki forsendur til að stunda nám á öðrum brautum skólans.

Fyrri greinÞjálfari Start spenntur fyrir Babacar
Næsta greinTæplega sextíu fangar í Fsu