Flaug út fyrir veg

Ökumaður fólksbíls slapp án alvarlegra meiðsla eftir að hann missti stjórn á bíl sínum á Eyrarbakkavegi og hafnaði utan vegar við bæjarmörkin á Selfossi laust fyrir klukkan 17 í dag.

Bíllinn var á leið upp Eyrarbakkaveg þegar ökumaðurinn missti stjórn á honum og fór út fyrir veg. Þar rak hann framendann á bílnum í vegkant á hliðarvegi og tók flugið yfir breiðan skurð. Eftir loftköstin fór bíllinn yfir girðingu og hafnaði inni í Björkurstykki.

Lögregla og sjúkralið voru kölluð út ásamt tækjabíl frá Brunavörnum Árnessýslu þar sem óttast var að ökumaðurinn væri fastur í bílnum. Hann komst þó að lokum út af sjálfsdáðum og var fluttur til skoðunar á slysadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Ökumaðurinn var einn í bílnum og eru meiðsli hans ekki talin alvarleg.

Tildrög slyssins eru ekki ljós en lögreglan á Suðurlandi rannsakar þau.

Fyrri greinNova bætir sambandið á Hellu
Næsta greinEygló sagt upp í Skaftárhreppi