Flakkandi Zelsíuz er nýtt úrræði fyrir ungmenni

Starfsfólk Zelsíuz mun ferðast um bæinn í bláum jökkum, svo þau séu auðþekkjanleg og aðgengileg ungmennum og öðrum íbúum. Ljósmynd/Aðsend

Í vikunni hófst formlega starfsemi Flakkandi Zelsíuz í Árborg, sem er nýtt framtak á vegum félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz. Markmið verkefnisins er að mæta ungmennum þar sem þau eru stödd, styrkja verndandi þætti í nærumhverfi þeirra og efla tengsl við samfélagið.

„Við mætum ungmennum á þeirra forsendum og á þeirra stað. Þetta er bæði forvarnarstarf og félagslegt úrræði sem eflir traust, tengsl og vellíðan ungmenna í Árborg,“ segir Guðmunda Bergsdóttir, forstöðumaður Zelsíuz.

Verkefnið byggir á vettvangsstarfi og sameinar stuðning og uppbyggilega viðburði á þeim stöðum þar sem ungmenni koma saman. Með því er stefnt að því að draga úr áhrifum áhættuþátta og styðja við félagslega stöðu unglinga, svo þau geti notið æsku sinnar í öruggu og styðjandi umhverfi.

Starfsfólk Zelsíuz mun ferðast um bæinn í níu manna bíl félagsmiðstöðvarinnar og klæðist bláum jökkum, svo þau séu auðþekkjanleg og aðgengileg ungmennum og öðrum íbúum. Starfið fer fram á kvöldin, frá fimmtudegi til laugardags, á tímabilinu 12. júní til 19. júlí. Samfélagslögreglan á Suðurlandi mun taka þátt í vöktum verkefnisins um helgar, sem eykur öryggi og sýnileika verkefnisins í samfélaginu.

Sérstök áhersla verður einnig lögð á viðveru á bæjarhátíðum í Árborg, eins og Kótelettunni og Sumar á Selfossi, þar sem ungmenni koma saman og mikilvægt er að bjóða þeim upp á jákvæða og styðjandi nærveru.

Að sögn Guðmundu hlaut verkefnið veglegan styrk frá Kvenfélagi Selfoss, sem gerir félagsmiðstöðinni kleift að efla búnað og aðstöðu til að sinna þessu mikilvæga starfi. „Þessi stuðningur er afar dýrmætur og skiptir sköpum fyrir það að geta mætt ungmennum með fagmennsku og hlýju,“ segir Guðmunda að lokum.

Fyrri greinBifreiðin er fundin
Næsta greinKomust ekkert áleiðis gegn tíu Þrótturum