Fjórum tölvum stolið

Brotist var inn í fyrirtækin Fagform og Prentverk við Gagnheiði 74 á Selfossi í fyrrinótt og fjórum tölvum stolið þaðan.

Innbrotið hefur átt sér stað á tímabilinu frá 00:30 til 07:30 í fyrrinótt. Þjófurinn hafði á brott með sér tvær fartölvur, stóra Mac borðtölvu og nýlega borðtölvu. Öðru mun ekki hafa verið stolið en eitthvað var rótað í skúffum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi.

Tölvurnar innihalda margs konar gögn og efni sem var í vinnslu hjá fyrirtækjunum. Innbrotið er óupplýst og eins og gefur að skilja er þetta mikill skaði og mikil óþægindi skapast við að tapa tölvugögnum.

Málið er í rannsókn en engar vísbendingar um hver hafi verið að verki. Hafi einhver upplýsingar um málið er sá hinn sami hvattur til að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.