Fjórum starfsmönnum sagt upp

Fjórum stjórnendum við Bláskógaskóla í Bláskógabyggð verður sagt upp störfum í kjölfar skipulagsbreytinga við skólann sem ráðist verður í á næsta skólaári.

Þetta staðfestir Helgi Kjartansson, oddviti. Hann segir að ekki verði um fleiri uppsagnir að ræða. Ekki liggur fyrir hvort stöðugildum fækki.

Sveitarstjórn hefur saþykkt samhljóða að gera breytingar á fyrirkomulagi skólamála í sveitarfélaginu, með þeim hætti að núverandi samreknum skólastofnunum Bláskógaskóla á Laugarvatni og í Reykholti verður skipt upp í tvær skólastofnanir að nýju.

„Þar af leiðandi þarf að segja upp núverandi samningum við alla stjórnendur Bláskógaskóla, skólastjóra og þrjá deildarstjóra og vinna að nýju skipulagi og skipuriti fyrir næsta skólaár,“ segir Helgi. Viðkomandi stjórnendum er frjálst að sækja um nýjar stöður að lokinni endurskoðun skipulags.

Undanfari samþykktar sveitarstjórnar er úttekt á starfsemi skólans sem unnin var af Ingvari Sigurgeirssyni, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Innan sveitarstjórnar var settur á laggirnar vinnuhópur sem sem hefur unnið með Ingvari að tillögum að framtíðarskipan skólamála í sveitarfélaginu og mun sá hópur vinna áfram með niðurstöður úttektarinnar.