Fjórtán sinnum fengið nei

„Nei, það hefur ekkert gengið að fá listamannalaun, ég er búin að sækja um fjórtán sinnum og hef alltaf fengið neitun.

Ætli ástæðan sé ekki að ég er einhver sveitakerling, sem tekur því ekki að púkka upp á, ætli það séu ekki bara listamennirnir í Reykjavík sem fá listamannalaun,“ segir Sigga á Grund í Flóahreppi, eða Sigríður Jóna Kristjánsdóttir eins og hún heitir fullu nafni.

Sigga, sem varð sjötug í vor var að ljúka við að skera út skeiðhest en hún hyggst skera út allar gangtegundir íslenska hestsins. Hún er komin með töltara og brokkara og stefnir að því að fetið og stökkið verði til á næsta ári.

Útskornu hestarnir eru allir í hennar einkaeigu en Siggu dreymir um að koma upp safni á Grund. „Það er brjálað að gera, ég er bæði að vinna fyrir mig og aðra, sit yfirleitt nokkra klukkutíma á dag og sker út hin ýmsu verkefni,“ segir Sigga hlæjandi enda jafnan stutt í brosið hjá henni.

Fyrri greinSelfoss tapaði stórt
Næsta greinÁsahreppur semur við Tónsmiðjuna