Fjórtán jeppar á felgunni

Óprúttnir aðilar gerðu sér það að leik aðfaranótt sunnudags að hleypa lofti úr dekkjum fjórtán jeppabifreiða sem stóðu fyrir utan Hótel Selfoss.

Jepparnir voru á vegum jeppaleigunnar Ísak ehf. og eru þeir í þriggja daga ferð um Suðurland með hóp Þjóðverja. Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Ísak, segir hópinn enn á ferðinni og þetta prakkarastrik hafi ekki sett strik í reikninginn hjá þeim.

„Lögreglan lét hótelstarfsfólkið vita snemma morguns og því gátum við brugðist við áður en fyrirhuguð brottför var frá hótelinu. Það eru dælur í öllum bílunum enda gengur jeppaferðamennska útá að hleypa úr og pumpa í, en kannski ekki við þessar aðstæður,“ sagði Ásgeir í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta bjargaðist svosem alltsaman þó að það sé svekkjandi að lenda í þessu. Við höfum aldrei séð þetta áður en grunar auðvitað helst að þarna séu drukknir unglingar á ferðinni,“ sagði Ásgeir.