Fjórtán brot á fáeinum mánuðum

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi á dögunum karlmann á fertugsaldri í þriggja ára fangelsi fyrir fjölda brota, þjófnað, eignaspjöll, tilraun til fjársvika og ítrekuð umferðarlagabrot.

Maðurinn á langan afbrotaferil að baki en er að þessu sinni dæmdur til fangelsisvistar óskilorðsbundið í kjölfar hrinu brota sem flest voru framin á Suðurlandi, á tímabilinu janúar til maí 2011.

Meðal þess sem maðurinn er dæmdur fyrir eru þjófnaður í mörgum verslunum á Selfossi og í Hveragerði, innbrot í sumarhús í Grímsnesinu og akstur undir áhrifum ýmissa lyfja og fíkniefna.

Sakaferill mannsins nær aftur til ársins 1990 þegar hann var 17 ára gamall. Með brotum sínum árið 2011 var maðurinn að rjúfa skilorð af eldri dómum.

Var hann dæmdur til að greiða sakarkostnað og smávægilegar skaðabótarkröfur frá tveimur fyrirtækjum, Byko og Kaupási.

Fyrri greinJólagluggi og barnadagskrá
Næsta greinHamarskonur einar á toppnum