Fjórir vinir takast á við Jure áskorunina

Næstkomandi sunnudag, þann 18. október, ætla fjórir Sunnlendingar að klífa sex fjallstinda í Slóveníu til að minnast vinar síns, sem lést í sumar, og styðja fjölskyldu hans.

Þetta eru þeir Sigurður Bjarni Sveinsson, Arnar Gauti Markússon, Stefnir Gíslason og Arnar Páll Gíslason. Sigurður, Arnar og Stefnir eru allir starfsmenn South Iceland Adventure á Hvolsvelli en Arnar Páll er sjúkraflutningamaður á HSu.

Þann 16. júlí í sumar varð vinur þeirra, Jure Breceljnik, bráðkvaddur aðeins 41 árs gamall. Jure elskaði Ísland og heimsótti landið oft. Hann var frábær ljósmyndari og kvikmyndagerðamaður og eftir hann liggja þúsundir ljósmynda og styttri kvikmynda sem notaðar hafa verið í kynningarefni um Ísland.

Natalija, eiginkona Jure, hafði einnig mikla ástríðu fyrir Íslandi. Hún er fyrrum atvinnuklifrari og á ferðum sínum til Íslands bauð hún Íslendingum upp á leiðsögn í klifri, án endurgjalds að sjálfsögðu, eins og hennar er von og vísa.

Fjórmenningarnir vilja endurgjalda þeim vinskapinn og væntumþykjuna gagnvart íslandi og leggja sitt af mörkum til að létta Natalija lífið á þessum erfiðu tímum.

Tindarnir sem urðu fyrir valinu eru í slóvensku ölpunum, nánar tiltekið í Slovenian Kamnik–Savinja Alps.

Verkefnið er samstarfsverkefni íslenskra og slóvneskra vina Jure og Nataljie. Meðal þeirra er Aleš Česen reyndur fjallaklifrari og sonur eins helsta háfjallaklifrara heims Tomo Česen sem meðal annars er þekktur fyrir klifurleiðir sínar á Lhotse í Everest fjallgarðinum og K2.

Áheitasöfnunin hefur nú þegar hlotið stuðning nokkurra stórra aðila, meðal annars Red Bull í Slóveníu og 66°N á Íslandi. Smærri aðilar hafa einnig lagt strákunum lið. Tannlæknir Dasa, kvikmyndagerðamanns og eins af þátttakendum í áheitagöngunni, lagði fram fría tannlæknaþjónustu fyrir Naty til nokkurra ára. Þar sannast að margt smátt gerir eitt stórt og öll framlög, stór og smá eru því vel þegin.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja söfnuninni lið geta gert það í gegnum sérstaka söfnunarsíðu eða haft samband á netfangið siggi@siadv.is eða við Björgu í síma 778-7335.

Söfnunin á Facebook

Vídeó af gönguleiðinni:


Jure Breceljnik.

Fyrri greinÞór spáð 5. sæti – Hamarskonur neðstar
Næsta greinVarað við ísingu í kvöld