Fjórir vilja í Skálholt

Fjórir prestar hafa skilað inn tilnefningum fyrir kjör til vígslubiskups í Skálholti sem varð að endurtaka þar sem fyrri kosningar voru dæmdar ógildar.

Umsækjendur eru hinir sömu og áður, að því undanskildu að Karl V. Matthíasson sækir ekki um að nýju.

Umsækjendurnir fjórir eru séra Agnes M. Sigurðardóttir, sóknarprestur í Bolungarvík og prófastur í Vestfjarðaprófastsdæmi, sr. Kristján Valur Ingólfsson, verkefnisstjóri helgisiða og prestur á Þingvöllum, Sigrún Óskarsdóttir, prestur í Árbæjarkirkju, og Jón Dalbú Hróbjartsson, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Sigrún Óskarsdóttir hlaut flest atkvæði í kosningunum sem fóru fram í mars, en eitt atkvæði skildi á milli Agnesar og Jóns Dalbú í fyrri umferð kosningarinnar. Séra Agnes kærði kosninguna þegar í ljós kom að tvö atkvæði voru póststimpluð þremur dögum eftir að auglýstur skilafresti rann út. Í framhaldinu úrskurðaði yfirkjörstjórn kosninguna ógilda og kjörstjórn Þjóðkirkjunnar sagði af sér.

Kjörgögn fyrir kosninguna voru send út í dag en frestur til að skila inn atkvæðum rennur út 28. júlí nk.

Fyrri greinFiskur á í fyrsta kasti
Næsta greinSlökkviliðið komið í Björgunarmiðstöðina