Fjórir Sunnlendingar í Bugsy Malone

Svala, Gísella, Hanna og Óskar frumsýna Bugsy Malone 4. apríl næstkomandi í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Söngleikjadeild Söngskólans í Reykjavík setur upp söngleikinn Bugsy Malone í Kassanum í Þjóðleikhúsinu eftir páska. Uppselt er á tvær fyrstu sýningarnar en söngleikurinn verður frumsýndur 4. apríl.

Fjórir Sunnlendingar fara með helstu hlutverk í sýningunni, þau Óskar Snorri Óskarsson frá Hruna, Hanna Tara Björnsdóttir frá Grásteini í Ölfusi og Rangæingarnir Svala Norðdahl frá Hróarslæk á Rangárvöllum og Gísella Hannesdóttir frá Arnkötlustöðum í Holtum.

Þess má geta að Óskar fer með aðalhlutverkið, leikur sjálfan Bugsy Malone, og nýverið fékk hann þær fréttir að hann væri kominn inn í leiklistardeild Listaháskóla Íslands.

Blaðamaður sunnlenska.is hitti þessa kátu og lífsglöðu krakka á Bókakaffinu á Selfossi einn eftirmiðdaginn eftir að þau höfðu farið yfir Heiðina í þæfingsfærð. Við setjumst við eitt borðið, umlukin bókum og menningu og látum fara vel um okkur. Krakkarnir hafa frá mörgu að segja og hafa sterkar skoðanir hvað varðar menningarlíf á Suðurlandi.

„Við erum öll í Söngskólanum í Reykjavík, erum í söngleikjadeildinni þar og núna erum við að setja upp söngleikinn Bugsy Malone,“ segir Hanna. „Þetta er fyrsta árið sem skólinn setur upp söngleik en þar var stofnuð söngleikjadeild í tilefni af 50 ára afmæli skólans,“ skýtur Óskar inn í.

Sungið í réttunum
Sautján nemendur eru í söngleikjadeildinni svo það verður að segja að það sé nokkuð hátt hlutfall að fjórir þeirra séu af Suðurlandi. „Það er mikið af fólki utan af landi í söngleikjadeildinni. Það eru bara fjórir eða fimm frá Reykjavík. Landsbyggðin er almennt mikið fyrir söng – við syngjum í réttunum og svona,“ segir Óskar og þau hlæja öll.

„Mér líður eins og allir eigi ömmur sem vilja að maður sé í söngnámi. Það er eitthvað þannig við landsbyggðina,“ segir Hanna og Svala bætir við: „Samt finnst mér þetta skrítið, því að það er ekki mikil leiklist stunduð á Suðurlandi.“ -„Það er kannski ástæðan fyrir því að maður flýr í bæinn,“ segir Hanna. -„Já, það er galli að Sunnlendingar missa marga til Reykjavíkur,“ bætir Óskar við.

Vita ekki lengur hvað frítími er
Krakkarnir segja að æfingarnar og undirbúningurinn hafi gengið mjög vel. „Þetta er búið að gerast mjög hratt, mikið action,“ segir Hanna. „Við byrjuðum að æfa um miðjan febrúar og við vitum ekki lengur hvað frítími er,“ segir Gísella og hin taka undir. „Við vorum einmitt að koma af sex tíma æfingu og keyrðum svo yfir Heiðina,“ segir Hanna og hlær. Krakkarnir eru allir með aðsetur í Reykjavík. „En ég er allavega með lögheimili ennþá á Suðurlandi,“ segir Óskar kankvís og hin hlæja.

Söngleikjadeild Söngskólans í Reykjavík setur upp söngleikinn Bugsy Malone í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Draumurinn er að starfa við listina
Þau segja öll að þetta sé draumurinn – að vinna við söng eða leik. Best ef það væri bæði. „Eða bara listin,“ segir Óskar og hin taka undir í einum róm. „Ég hef oft verið að pæla í því að það vanti meira listalíf á Suðurlandi. Það vantar leikhús og það vantar sýningar og myndlistarsýningar og alls konar. Og eitthvað sem allir geta tekið þátt í,“ segir Óskar. „Það vantar fleiri tækifæri til að koma sér á framfæri á Suðurlandi,“ segir Svala. „Við göngum bara í þetta, að stofna leikhús,“ segir Gísella.

Krakkarnir segjast vera meðvituð um að það séu leikfélög á Suðurlandi en það fari lítið fyrir þeim. Þau hafa öll hug á því að bæta úr menningarleysinu á Suðurlandi að námi loknu.

„Vertu bara í fimleikum“
„Öll tækifærin eru í bænum en það væri alveg gaman að færa þau líka út á land. Krakkar eins og við, við gátum ekki tekið þátt í neinum sýningum í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu því að við bjuggum bara lengst í burtu,“ segir Gísella.

„Af því að þetta er svona þá hefur fólk einhvern veginn ekki jafn mikla trú á manni. Fólk er bara nei þú ert ekkert að fara að verða fræg leikkona, hvað er að þér?,“ segir Svala. „Þetta er meira svona, hættu – vertu bara í fimleikum,“ segir Hanna.

Óskar bætir við að það sé það sem Suðurlandið hafi vissulega – mjög mikið af íþróttafólki. „En margir eru ekki þar. Fólk byrjar í íþróttum- ég byrjaði þar, auðvitað byrja allir í íþróttum. Ég bjó á Flúðum, ég gat æft söng því að söngkennarinn minn bjó þar en ég gat ekki verið í neinu leikfélagi nema í grunnskólanum. Það var bara körfubolti, frjálsar og fótbolti í boði fyrir mig,“ segir Óskar.

Frá æfingatímabilinu. Ljósmynd/Aðsend

Fullkomin ADHD sýning
En aftur að sýningunni Bugsy Malone. „Þetta er sýning fyrir alla. Það er ýmislegt sem er djúpt sem kannski fimm ára krakkar eru ekki að fara að skilja en það er líka aulahúmor sem krakkar geta hlegið að endalaust,“ segir Óskar. „Það er líka mikið af tónlist og dansi – brjálað að gera. Þetta er fullkomin ADHD sýning,“ segir Hanna.

En hvernig tilfinning er það fyrir sveitakrakkana að vera komin í Þjóðleikhúsið með sýningu? „Að labba þarna inn og fara í matsalinn!“ segir Óskar með tilþrifum og þau hlæja öll. „Við vorum í mat þarna í fyrsta skipti í dag og maður titraði af spenningi,“ segir Hanna. „Þetta var samt voða kósý eitthvað á sama tíma. Það er svo gott andrúmsloftið þarna,“ segir Gísella. „Það taka allir okkur opnum örmum. Líka kennaranir í söngskólanum,“ segir Óskar.

Bugsy Malone er hin fullkomna ADHD sýning. Ljósmynd/Aðsend

Kom ekki upp orði í prufunum
Kennarar söngleikjadeildarinnar eru Valgerður Guðnadóttir og Garðar Thór Cortes en það eru söngvarar sem krakkarnir hafa miklar mætur á. „Ég náði ekki orði upp þegar ég labbaði fyrst inn í prufurnar því að ég var svo starstruck að sjá Völu Guðna,“ segir Hanna og hlær og Gísella bætir við. „Hún var sko idolið mitt þegar ég var lítil.“

Krakkarnir þurftu að fara í prufur fyrir söngleikinn og segja þau að sýningin sé mjög fagmannlega unnin þó að þetta sé nemendasýning. „Við erum til dæmis með atvinnuhljómsveit sem verður á sviðinu með okkur, þar sem Sigurður Helgi – besti píanóleikari landsins – stjórnar,“ segir Hanna.

Óskar ásamt leikstjóra sýningarinnar, Níels Thibaud Girerd. Ljósmynd/Aðsend

Vilja alvöru leikhús á Suðurlandi
Krakkarnir kalla eftir því að sveitarfélögin styðji betur við listalíf og að samfélagið í heild sinni taki höndum saman við að byggja upp gott menningarlíf. „Við byrjuðum til dæmis með leikfélag aftur í FSu eftir margra ára pásu og það var bara enga hjálp að fá. Við fengum engan pening frá skólanum, engan stuðning, við þurftum að draga fólk í þetta með okkur,“ segir Hanna en hún og Svala voru báðar í FSu en Óskar og Gísella bæði í ML.

Óskar fagnar því að Sviðið sé komið í miðbæ Selfoss. „Ég er búinn að fara á þrenna tónleika á Sviðinu og það var æðislegt. Við förum á tónleika hérna, af hverju getum við ekki farið í leikhús hérna? Af hverju gerum við ekki eitthvað hérna á Suðurlandi, sem samfélag?“ segir Óskar að lokum.

Leikstjórn sýningarinnar er í höndum Níelsar Thibaud Girerd. Danshöfundur er Júlía Kolbrún Sigurðardóttir og tónlistarstjóri er Sigurður Helgi. Hægt er að nálgast miða inn á tix.is.

Uppselt er á fyrstu tvær sýningarnar og fólk því hvatt til að tryggja sér miða í tíma. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinMilljónamiði í Krambúðinni
Næsta greinÞrjú sæmd starfsmerki UMFÍ