Fjórir strengir plægðir niður í einu á tveggja metra dýpi

„Verkið gengur mjög vel, við erum á góðri áætlun og allt hefur gengið upp. Plógurinn kemur mjög vel út og sparar okkur mikla vinnu á söndunum í Ölfusi og í gegnum Eyrarbakka, þar þurfum ekkert að grafa.“

Þetta segir Jón Örn Ingileifsson, verkstjóri hjá Ingileifi Jónssyni frá Svínavatni sem sér um lagningu Selfosslínu þrjú sem liggur á milli Þorlákshafnar og Selfoss. Selfosslína þrjú er ný tuttugu og átta kílómetra löng jarðstrengstenging milli Selfoss og Þorlákshafnar og mun hún auka afhendingaröryggi raforku í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi.

„Plógurinn er eini sinni tegundar hér á landi en alls eru til um áttatíu svona plógar í heiminum. Við setjum fjóra strengi niður með plógnum, þrjá rafstrengi og einn ljósleiðarastreng en allir strengirnir fara á tæplega tveggja metra dýpi,“ segir Jón Örn.

Gert er ráð fyrir að strengurinn verði spennusettur í nóvember næstkomandi.

Fyrri greinStigamet hjá báðum kynjum
Næsta greinKvenfélagskonurnar búnar að sauma 210 poka