Fjórir fastir á fjöllum

Á Hellisheiði. Mynd úr safni. Ljósmynd/HSSH

Í síðustu viku var fjórum sinnum leitað aðstoðar lögreglunnar á Selfossi vegna ferðalanga sem höfðu fest ökutæki sín í snjó.

Einn bíllinn var á Hellisheiði við Gíga sem eru norðan við Skíðaskálann, annar á Lyngdalsheiði og tveir ofarlega í Hrunamannahreppi.

Lögreglan segir að í svona tilvikum sé oftast leitað til björgunasveita sem ætíð koma til hjálpar. Oftar en ekki er fólk sem í þessu lendir vanbúið og ókunnugt aðstæðum.

Á seinni tímum hefur aukist að erlendir ferðamenn hafi notið aðstoðar björgunarsveita án þess að greiðsla komi til. “Er ekki kominn tími til að hluti tekna sem ferðamenn skilja eftir í landinu renni til björgunarsveita?” spyr lögreglan í dagbók sinni í þessari viku.