Fjórir búðarþjófar handteknir

Lögreglumenn á Suðurlandi handtóku í gær fjóra einstaklinga með ríkisfang í Georgíu grunaða um að hafa verið að stela í verslunum á Selfossi.

Þrír þeirra hafa stöðu hælisleitenda á Íslandi en einn kvaðst vera ferðamaður hér og framvísaði félagsskírteini sem hann sagði vera frá International Police Associaton (IPA) en hann væri lögreglumaður í heimalandi sínu.

Mennirnir voru færðir í fangageymslu á Selfossi og yfirheyrðir í gær og aftur í morgun en verður að öllum líkindum sleppt nú á eftir.

Í fórum mannanna fundust, auk ætlaðs þýfis, kvittanir fyrir sendingum peninga frá Íslandi á síðustu tveimur dögum sem nemur hundruðum þúsunda króna. Öflug öryggismyndavélakerfi verslana hafa reynst mjög hjálpleg við rannsóknina.

Grunur leikur á að mennirnir hafi stundað iðju sína í verslunum á höfuðborgarsvæðinu einnig.

Við rannsóknina hefur lögreglan notið aðstoðar Alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra.