Fjórir bílar ultu í mikilli hálku

Fljúgandi hálka er víða á Suðurlandi en fjórir bílar ultu í Árnes- og Rangárvallasýslu í gærkvöldi og í nótt. Minnstu munaði að stórslys yrði skammt frá Borg.

Ekki urðu alvarleg slys á fólki í neinni af þessum veltum. Um klukkan níu valt bíll við Álftavatn í Grímsnesi. Tveir voru um borð í þeim bíl. Um klukkan tíu ók sendibifreið útaf og valt á hliðina rétt austan við Þjórsá. Slapp ökumaðurinn ómeiddur.

Um hálf tvö leytið var tilkynnt um bílveltu skammt frá Borg í Grímsnesi. Tveir voru í bílnum og sluppu ómeiddir en bifreiðin skemmdist mikið. Nokkrum mínútum síðar valt annar bíll einungis nokkrum metrum frá fyrri slysstaðnum. Fimm ungmenni voru í þeim bíl sem stórskemmdist en fólkið slapp vel og fékk að fara heim að lokinni skoðun á heilsugæslunni á Selfossi.

Á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig á vettvangi í Grímsnesi kom bifreið akandi á miklum hraða í gegnum vettvanginn og hvarf svo út í myrkrið. Aðeins munaði hársbreidd að fólk hafi orðið fyrir bílnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir á Sandskeiði og einnig á flestum leiðum í uppsveitum á Suðurlandi. Hálka er á frá Selfoss að Hvolsvelli.

Fyrri greinAri ráðinn umhverfisfulltrúi
Næsta greinVISS kemst í jólaskap