Fjórar milljónir króna í sunnlensk verkefni

Víkurskóli í Mýrdal. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlenskir grunnskólar fá rúmlega 4 milljónir króna í nýrri úthlutun Sprotasjóðs, sem styður við þróun og nýjungar í skólastarfi. 

Á dögunum var úthlutað úr sjóðnum og hlutu alls 42 verkefni styrki að samtals 54 milljónum króna. Áherslusvið sjóðsins að þessu sinni eru á lærdómssamfélög skóla og drengi og lestur.

Víkurskóli í Mýrdal fékk hæsta styrkinn af sunnlensku skólunum, 1,2 milljónir króna vegna strandlínurannsóknar nemenda í Víkurfjöru en verkefnið er unnið í samstarfi við Kötlu jarðvang.

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fær 1,1 milljón króna fyrir verkefnið BES lítur sér nær og Stekkjaskóli á Selfossi fær 950 þúsund krónur til þess að byggja upp lærdómssamfélag í nýjum grunnskóla.

Þá fær Kirkjubæjarskóli á Síðu fær 800 þúsund krónur fyrir verkefnið Staðarvitund og geta til aðgerða – leiðir til að skapa lærdómssamfélag í grunnskóla í brothættri byggð.

„Umsóknir í Sprotasjóð bera vitni um nýsköpun, samvinnu og grósku sem einkennir íslenska skóla. Þar er gríðarlegur metnaður og vilji til góðra verka sem mikilvægt er að styðja við,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Fyrri greinHéraðsþingi HSK frestað um tvær vikur
Næsta greinÖkumenn tóku við sér í síðustu viku