Fjórar krónur af eldsneytislítranum til Landgræðslunnar

Olís á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Olíuverslun Íslands hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum að kolefnisjafna eldsneytisviðskiptin.

Allir sem eru með lykil eða kort frá Olís og ÓB hafa nú val um að gefa eftir 2 krónur af föstum lítraverðsafslætti og aðrir viðskiptavinir getað einnig kolefnisjafnað einstaka áfyllingar. Olís leggur síðan til 2 krónur á móti. Þessi upphæð, 4 krónur af hverjum lítra, fer óskipt til Landgræðslunnar og nýtist þar í fjölbreytt verkefni á sviði kolefnisbindingar.

Olíuverslun Íslands skrifaði á dögunum undir samning þess efnis að allur rekstur félagsins, akstur, flug og dreifing eldsneytis, verði kolefnisjafnaður. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna.

„Samstarf Olís og Landgræðslunnar er ekki nýtt af nálinni. Þann 26. maí 1992 var hrint af stað samvinnuverkefninu „Græðum landið með Olís“. Það var upphafið af löngu og farsælu samstarfi. Ég lít svo á að við munum vinna þetta verkefni áfram með Landgræðslunni í framtíðinni. Okkur finnst ánægjulegt að geta nú boðið viðskiptavinum félagsins að taka þátt í þessari vegferð með okkur,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.

Fyrri greinEva María með silfur á NM
Næsta greinLeitað með kafbátum í Þingvallavatni