Fjórar konur hættu eftir áralangan starfsferil

Nýlega létu fjórar konur af störfum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands eftir áralangan starfsferill hjá stofnuninni, allt uppí 35 ár.

Haldið var kveðjuhóf og þeim afhent þakkargjöf ásamt þökkum fyrir vel unnin störf við stofnunina og kærar óskir um velfarnað í komandi framtíð. Ein þessara kvenna Guðfinna Ólafsdóttir læknaritari, rifjaði upp ýmislegt frá sínum ferli í gegnum árin og þær breytingar sem orðið hafa á þessum árum, t.d. í tæknimálum og viðhorfi til ýmissa hluta.

Guðfinna varð 67 ára þann 5. ágúst síðastliðinn. Hún starfaði alla tíð sem læknaritari og var með 32 ára starfsaldur við stofnunina.

Hinar þrjár eru Gunndís Sigurðardóttir, en hún varð 70 ára þann 26. júní. Gunndís starfaði sem sjúkraliði á hand- og lyflækningadeild og var með 35 ára starfsaldur sem sjúkraliði í 23 ár og þar áður við umönnun í 12 ár.

Selma Katrín Albertsdóttir, sem varð 70 ára 20. ágúst. Selma starfaði sem sjúkraliði á Fossheimum og var með um 30 ára starfsaldur við stofnunina, bæði í starfi sem sjúkraliði, móttökuritari og í umönnun.

Alda Hermannsdóttir, en hún varð 70 ára 19. maí. Alda starfaði við umönnun á Ljósheimum. Hún hóf störf á Ljósheimum árið 2000 og með 13 ára starfsaldur þegar hún hætti.

Frá þessu er greint á heimasíðu HSu.

Fyrri greinGunnar Gränz sýnir hjá TM
Næsta greinMiklir rekstrarerfiðleikar á HSu