Fjórar hraðhleðslustöðvar settar upp á Flúðum

Fjórar öflugar hraðhleðslustöðvar verða settar upp á vormánuðum á lóðinni við Hrunamannaveg 3 á Flúðum. Með uppsetningu stöðvanna er brugðist við þeirri aukningu á umferð sem orðið hefur á undanförnum árum í gegnum Flúðir og þeirri þörf sem bæði heimamenn sem og ferðamenn hafa fyrir þjónustu sem þessa.

Með bættum vegi frá Flúðum að Gullfossi hefur umferð aukist mjög í gegnum sveitarfélagið og Flúðir og ljóst að með frekari uppbyggingu bæði á Flúðum og í nágrenninu til dæmis í Þjórsárdal mun umferð enn aukast.

„Einnig gerir mikil fjölgun rafbíla nauðsynlegt að bregðast við með fjölgun hleðslustöðva og þá sérstaklega á vinsælum viðkomustöðum eins og Flúðum. Því var það sveitarstjórn mikil ánægja að samþykkja samning við fyrirtækið Instavolt ehf um uppsetningu slíkra stöðva,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri.

Fyrri greinBuðu grunnskólabörnum í stjörnuskoðun
Næsta greinFéll útbyrðis þegar kviknaði í léttabát Herjólfs