Fjórar fríar klukkustundir í leikskólum Hveragerðisbæjar

Leikskólinn Óskaland í Hveragerði. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Bæjarráð Hveragerðis samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu Okkar Hveragerðis og Framsóknar um að fjórar klukkustundir á dag verði gjaldfrjálsar í öllum árgöngum í leikskólum bæjarins.

Breytingin tekur gildi þann 1. september næstkomandi.

Meirihlutinn í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur lengt gjaldfrjálsa tímann í þrepum frá árinu 2022, þegar ein klukkustund varð gjaldfrjáls. Haustið 2023 urðu það tveir tímar og haustið 2024 þrjár fríar klukkustundir.

Þessi skref eru í takt við stefnu meirihlutans á sex tíma gjaldfrjálsa leikskóladvöl á kjörtímabilinu.

„Sveitarfélögunum er skylt að tryggja börnum dvöl á leikskóla og mikilvægt er að öll börn hafi tækifæri á því að sækja fyrsta skólastigið sem leikskólinn er. Í málefnasamningi meirihlutans er lögð rík áhersla á velferð fjölskyldunnar og kemur þar skýrt fram að vilji sé til að létta undir með barnafjölskyldum,“ segir í greinargerð með tillögunni sem samþykkt var í bæjarráði.

Fyrri greinÓvænt tap Rangæinga
Næsta greinÓskar ráðinn fjármálastjóri First Water