Fjör í Flóa um helgina

Fjör í Flóa er um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa verður haldin hátíðleg í Flóahreppi dagana 31. maí til 1. júní.

Hátíðin byrjar á föstudegi þar sem fyrirtæki og fjölskyldur í Flóahreppi bjóða gesti velkomna á opin hús. Föstudagskvöldið verður svo hin geysivinsæla kvöldganga en í ár verður gengið um Súluholtshverfið og fræðst um svæðið á meðan fólk nýtur náttúrunnar.

„Laugardaginn 1. júní hefjum við hátíðina á að ganga til kosninga. Forsetakosningar fara fram í Félagslundi frá kl. 10-22. Í hádeginu hefst svo skemmtileg og fjölbreytt dagskrá í og við Þingborg, þar sem kvenfélögin í Flóahreppi verða með hinn margrómaða kökubasar. Ungmennafélagið Þjótandi, ásamt íþrótta-, æskulýðs- og menningarnefnd Flóahrepps, bjóða upp á fjölbreytta barna- og fjölskyldudagskrá þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Sigrún Hrefna Arnardóttir, ein af skipuleggjendum hátíðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

„Vélasýningin verður glæsileg að vanda og Fergusonfélagið mætir á staðinn. Torfæruklúbburinn verður með tryllta bíla á svæðinu. Sölubásar, handverkssýning, lifandi tónlist, sumarblómastandur, myndlistarsýning, kökuskreytingarkeppni, kassabílarallý og margt fleira. Við hlökkum til að sjá ykkur og eiga frábæra helgi saman í Flóahreppi,“ segir Sigrún að lokum.

Fyrri greinSara Rosida dúxaði í ML
Næsta greinTveir Íslandsmeistaratitlar í hús eftir helgina