Fjölskyldufjör í Vallaskóla á laugardag

Slökkviliðið verður á svæðinu og hægt verður að skoða reykköfunarbúninga, slökkvibíla og fleira forvitnilegt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á morgun, laugardaginn 6. apríl kl. 14, verður fjölskyldufjör í Vallaskóla á Selfossi til styrktar Brunavörnum Árnessýslu. Safnað verður fyrir sjálfvirku hjartastuðtæki.

„Við erum nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands sem skipuleggjum þennan viðburð í áfanga sem heitir viðburða og verkefnastjórn. Okkar hópur ákvað að halda viðburð til styrktar Brunavörnum Árnessýslu þar sem að þeir hafa verið mikið í fréttum vegna fjölda alvarlegra bílslysa og stórbruna undanfarin misseri ásamt því að þeir sinna gríðarlega stóru svæði hér á Suðurlandi,“ segir Sigríður Vigdís Þórðardóttir, ein þeirra sem skipuleggur viðburðinn.

„Við erum að safna fyrir sjálfvirku hjartastuðtæki sem sett verður í slökkvibíl og eykur öryggi margfalt og hjálpar þeim á vettvangi ef til hjartaáfalls kemur,“ bætir Sigríður við.

Slökkviliðið verður á svæðinu á fjölskyldufjörinu en þar verður hægt að skoða reykköfunarbúninga, slökkvibíla og fleira forvitnilegt. Sett verður upp þrautabraut og þeir sem vilja geta farið í Zumba og dillað sér í takt við hressandi tónlist. Slökkviliðsmenn ætla meðal annars að skella sér í Zumba í reykköfunarbúnaði.

Frítt verður í sund eftir viðburðinn fyrir þá sem mæta.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur, frítt fyrir 5 ára og yngri, en einnig verður tekið á móti frjálsum framlögum.

Fyrri grein„Sitjandi tónleikar ganga sjaldnast upp“
Næsta grein„Geggjuð reynsla fyrir okkur“