Fjölskyldan í jólaskap

Fjölskyldan verður í fyrirrúmi á Úlfljótsvatni á sunnudaginn, en þá býður Útilífsmiðstöð skáta Sunnlendingum að taka þátt í fjölskyldudegi sem endar á girnilegu jólahlaðborði.

„Við byrjum strax klukkan eitt,“ segir Guðmundur Finnbogason á Úlfljótsvatni. „Þá skellum við okkur í piparbökubakstur og jólaföndur og við pössum að unga fólkið taki virkan þátt. Einnig verður hægt að reyna fyrir sér í eplabogfimi, en það getur verið þrautinni þyngra að hæfa jólaepli með boga og ör!“

Þá hafa borist fréttir af því að Gáttaþefur sé væntanlegur á svæðið, en hann mun vera öllum hnútum kunnugur á Úlfljótsvatni.

„Eftir kakóbolla og jólapönnukökur er svo hægt að fara upp í fjall og fella vænlegt jólatré, en klukkan sex hefst borðhald með margrétta jólahlaðborði. Á matseðlinum er fjöldi rétta, bæði hefðbundnir jólaréttir og eins sitthvað sem ætti að vekja lukku hjá börnunum,“ segir Guðmundur og bætir við að verði sé stillt í hóf. „Börn undir sex ára aldri borga ekkert og 6-12 ára borga hálft gjald.“

Frekari upplýsingar og skráning er á heimasíðu Útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni.