Fjölskyldan í fyrirrúmi á Úlfljótsvatni

Líkt og undanfarin ár verður boðið upp á fjölskylduhátíð á Úlfljótsvatni um Verslunarmannahelgina. Þar verður mikið fjör og fjölskyldan höfð í fyrirrúmi.

Leikhópurinn Lotta, bogfimi, bátar, klifurturn, vatnasafarí, hoppukastalar, folf, varðeldar og skátasmiðjur er meðal þess sem er í boði. Hægt er að kaupa sérstök dagskrárarmbönd sem gilda alla helgina. Þau kosta 2.000 kr. fyrir alla helgina en einnig er hægt að kaupa í einstaka dagskrárliði.

Þá verður sérstakur bananaleikur í gangi fyrir yngstu krakkana á tjaldsvæðinu alla helgina en þar eru krakkarnir hvattir til að leysa hin ýmsu verkefni eins og t.d. að teikna mynd af Úlfljótsvatni, búa til blómvönd, spreyta sig í þrautabraut eða hjálpa til við kvöldmatinn. Þegar þau hafi lokið 12 af 16 mögulegum verkefnum fá þau gefins litla gjöf og banana í þjónustumiðstöð. Bananaleikurinn er innifalinn í tjaldsvæðisgjaldi.

Úlfljótsvatn er fjölskyldutjaldsvæði
„Við viljum taka það sérstaklega fram að Úlfljótsvatn er fjölskyldutjaldsvæði hugsað fyrir fjölskyldufólk og hér er kyrrð á svæðinu frá miðnætti,“ segir Guðmundur Finnbogason, framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvar skáta, og áréttar að ölvun sé ekki leyfileg á svæðinu þó að mönnum sé velkomið að fá sér vínglas með matnum.

Á liðnum árum hefur aðstaðan á Úlfljótsvatni byggst upp, bæði afþreying sem og hreinlætisaðstaða. Tjaldsvæðið er öllum opið og allir velkomnir. Ókeypis er fyrir 16 ára og yngri í fylgd með fullorðnum.

Fjölbreytt dagskrá alla helgina

Fimmtudagur
16-21 Frítt kaffi í þjónustuhúsinu á meðan fólk er að koma sér fyrir

Föstudagur
16-17 Myndapóstaleikur um svæðið
16-23:30 Frítt kaffi í þjónustuhúsinu á meðan fólk er að koma sér fyrir

Laugardagur
10-12 Hoppukastalar
11-12 Myndapóstaleikur
11-12 Bogfimi
13-15 Bátaleiga
14-15 Folf kennsla
15-16 Barnavarðeldur
16-18 Skátasmiðja (efniskostnaður ekki innifalinn í dagskrárgjaldi)
16-17 Poppað á opnum eldi
17-18 Þrautabraut
17-18 Turn
14-17 Vöfflusala í Gilwell skálanum
21-22 Varðeldur að skátasið

Sunnudagur
10-12 Hoppukastalar
10-12 Hnútakennsla
13-15 Bátaleiga
14-17 Vöfflusala í Gilwell skálanum
14-16 Skátasmiðja (efniskostnaður ekki innifalinn í dagskrárgjaldi)
15-16 Vatnasafarí
16:30 Leikhópurinn Lotta
16-18 Turn
21-22 Varðeldur að skátasið

Mánudagur
10-12 Hoppukastalar
10-12 Bogfimi
13-15 Bátaleiga

Ókeypis gisting fyrir börn

Verð fyrir gistingu á tjaldsvæði er stillt í hóf og gista börn 16 ára og yngri ókeypis. Auk þess er ókeypis fyrir þau í barnaleikinn yfir verslunarmannahelgina. Fullorðnir greiða 1.400 kr. fyrir gistingu fyrstu nóttina á tjaldsvæðinu, önnur nótt kostar 1.200 kr. og allar nætur eftir það 1000 kr., ef allt er greitt í einu við komu á svæðið. Mögulegt er að fá tengingu við rafmagn og kostar það 1.000 kr. hver nótt.

Dagskrárpassi sem gildir í dagskrá alla helgina kostar 2.000 kr. Einnig er mögulegt að taka þátt í einstaka dagskrárliðum og kostar það frá 300 – 1.000 kr.

Fyrri grein„Við vorum ekki alveg nógu klókar“
Næsta greinJón endurráðinn forstjóri