Fjölnota stóll afhentur á Kirkjuhvoli

Síðastliðinn miðvikudag komu fulltrúar kvenfélagsins Einingar færandi hendi á dvalar- og hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli og afhentu fjölnota snyrti- og meðferðarstól.

Stóllinn nýtist snyrtifræðingum, fótaaðgerðafræðingum, nuddurum og fleirum.

Kvenfélagið hefur tvisvar haldið Góugleði og ákveðið var að nota ágóðann til kaupa á stólnum fyrir Kirkjuhvol. Kvenfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem lögðu hönd á plóginn varðandi undirbúning og framkvæmd Góugleðinnar.

Félag aðstandenda heimilisfólks á Kirkjuhvoli leitaði til annarra kvenfélaga í sveitarfélaginu og til Rauðakrossdeildar Rangárvallasýslu vegna kaupa á stólnum og lögðu þessi félög fram góðan skerf. Fyrir þá upphæð voru keyptir fylgihlutir, s.s. stól fyrir sérfræðing að störfum, borð og lampa. Allt eru þetta hlutir sem þarf til að mynda fullkomna snyrtistofu fyrir heimilismenn og voru þeir einnig afhentir á miðvikudaginn

Ólöf Guðbjörg, forstöðukona Kirkjuhvols vildi skila kæru þakklæti fyrir hönd Kirkjuhvols, til allra þeirra sem komu að því að gefa þessa góðu gjöf.

Fyrri greinVerða af milljónum vegna rangrar skráningar
Næsta greinHerjólfur tekinn í tog