Fjölnota íþróttahúsið á Selfossi boðið út

Í fyrsta áfanga hússins er hálfur knattspyrnuvöllur og aðstaða fyrir frjálsar íþróttir.

Í dag birtust útboðsauglýsingar frá Verkís, fyrir hönd mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar, þar sem óskað er eftir tilboðum í jarðvinnu og byggingu fyrsta áfanga fjölnota íþróttahúss á Selfossi.

Jarðvinnu er skipt niður í áfanga en fyrsta áfanga á að vera lokið þann 15. nóvember næstkomandi svo að byggingarverktaki geti hafist handa við að slá upp mótum og steypa undirstöður.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í vor er áætlað er að húsið verði afhent til notkunar þann 1. ágúst árið 2021. Hlé verður á framkvæmdum í tæpan mánuð næsta sumar vegna unglingalandsmótsins á Selfossi um verslunarmannahelgina. Á þeim tímapunkti á allri vinnu við steyptar undirstöður og veggi ásamt fyllingum í jörðu að vera lokið.

Í þessum fyrsta áfanga hússins er hálfur knattspyrnuvöllur og aðstaða fyrir frjálsar íþróttir og mun húsið rísa við suðurenda núverandi gervigrasvallar. Húsið verður stálgrindarhús á steyptum undirstöðum með aðstöðu fyrir vallarstarfsmenn, fimm snyrtingum, þar af tveimur með aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Útveggir hússins verða klæddir með grjótfylltum grjótgrindum upp í 4 metra hæð og þar fyrir ofan er „mjólkurlituð“ þreföld ylplata og þakið klætt með gráum PVC þakdúk.

Fyrsti áfangi fjölnota íþróttahúss á Selfossi rís fyrir sunnan núverandi gervigrasvöll.
Fyrri greinÁ hraðferð með laust barn í bílnum
Næsta greinSafnaði 200 þúsund krónum með hlaupi fyrir Kraft