Fjölmiðlabann í Sólheimamáli

Fulltrúar Sólheima í Grímsnesi og Sveitarfélagsins Árborgar hittust hjá ríkissáttasemjara í gær til að ræða fyrirkomulag varðandi rekstur Sólheima.

Á fundinum kynntu Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, sjónarmið sín fyrir Magnúsi Stefánssyni ríkissáttasemjara. Munu þau í framhaldinu afla frekari gagna fyrir næsta fund.

„Það var rætt um að fara með þetta mál eins og önnur mál hjá sáttasemjara, að aðilar taka sér hlé í að ræða við fjölmiðla á meðan viðræður standa yfir og beina öllum fyrirspurnum á sáttasemjara,“ sagði Guðmundur Ármann í samtali við Fréttablaðið eftir fundinn. Ekki náðist í Ástu síðdegis í gær.

Með Guðmundi á fundinum var Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, sem situr í stjórn Sólheima. Með Ástu sat fundinn Arna Ír Gunnarsdóttir frá Svæðisskrifstofu um málefna fatlaðra á Suðurlandi. Magnús Jónsson, fyrrverandi Veðurstofustjóri, var á fundinum og mun verða ríkissáttasemjara til fulltingis í málinu.

Fyrri greinKirkjuráð vill úttekt á Skálholtsstað
Næsta greinJólin kvödd á Selfossi í kvöld