Fjölmennur og viðkvæmur hópur sem þolir illa óstöðugleikann

Fjölbrautaskóli Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Fjölskyldusvið Sveitarfélagsins Árborgar hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum af stöðu nemenda á sérnámsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurlands vegna verkfalls kennara.

Í ályktuninni sem er bókuð 14. nóvember síðastliðinn er vakin athygli á því að hópurinn sem stundar nám á sérnámsbraut í FSu sé fjölmennur, í viðkvæmri stöðu og þoli illa óstöðugleikann sem fylgir verkfallsaðgerðum.

Bent er á að að virkni og félagsleg þátttaka sé veigamikill þáttur í námi þessa hóps. Innan hópsins séu einstaklingar með miklar umönnunar- og stuðningsþarfir og því getur verkfall sem þetta haft langvarandi áhrif á þau og fjölskyldur þeirra sem getur kallað á aukna stuðningsþörf. Hvetur fjölskyldusvið Árborgar samningsaðila til að leita allra leiða til að binda enda á deiluna og hlífa með því nemendum í viðkvæmri stöðu. Stjórnendur í FSu eru ennfremur hvattir til að óska eftir undanþágu fyrir kennara nemenda á sérnámsbraut FSU.

Kennaraverkfallið við FSu hefur nú staðið yfir í 28 daga.

Ályktunin í heild sinni:
Starfsfólk velferðarþjónustu fjölskyldusviðs Árborgar hafa áhyggjur af stöðu nemanda á sérnámsbraut í FSu vegna verkfalls kennara. Hópurinn sem stundar nám á sérnámsbraut í Fsu er fjölmennur, í viðkvæmri stöðu og þola mörg hver illa óstöðugleikann sem fylgir verkfallsaðgerðum. Virkni og félagsleg þátttaka er veigamikill þáttur í námi þessa hóps. Innan hópsins eru einstaklingar með miklar umönnunar- og stuðningsþarfir og því getur verkfall sem þetta haft langvarandi áhrif á þau og fjölskyldur þeirra sem getur kallað á aukna stuðningsþörf. Hvetur fjölskyldusvið sveitarfélagsins Árborgar samningsaðila til að leita allra leiða til að binda enda á deiluna og hlífa með því nemendum í viðkvæmri stöðu. Þar sem verkfallsaðgerðir hafa dregist á langinn hvetja undirritaðar stjórnendur í FSu til að óska eftir undanþágu fyrir kennara nemenda á sérnámsbraut í FSU.

Virðingarfyllst,
Sigþrúður Birta Jónsdóttir
Deildarstjóri velferðarþjónustu Árborgar
Heiða Ösp Kristjánsdóttir
Sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar

Fyrri greinJólin byrja á Laugarvatni
Næsta greinStefna og áherslur fyrir okkur öll