Fjölmenning í hangikjötsveislu hjá Bókasafni Árborgar

Frá veisluboðinu sl. þriðjudag. Ljósmynd/Aðsend

Á hverjum þriðjudegi hittist hópur fólks á bókasafninu á Selfossi og æfir sig í að tala íslensku. Að frumkvæði fastagesta var haldið fjölmenningarlegt veisluboð þriðjudaginn 9. desember.

Fólkið sem mætir kemur víðsvegar að úr heiminum og á það sameiginlegt að langa til að bæta færni sína í íslensku og kynnast öðrum sem eru í sömu sporum.

Síðasta þriðjudag var svo komið að sögulegri stund! Smakki á hangikjöti, laufabrauði og „maltesíni“. Vel var mætt og fljótlega bættust við allskonar aðrar veitingar eins og palestínsk hátíðarkaka og grískar smákökur sem runnu jafn ljúflega niður og alíslenskir lakkrístoppar.

Það eru starfsmenn menningar- og upplýsingadeildar Árborgar, þau Sigrún Þuríður Runólfsdóttir, Esther Erla Jónsdóttir og Sigurjón Guðbjartur Jónasson sem halda utan um þriðjudagsstundirnar sem kallast „Komdu að tala íslensku“ en þær eru hluti af verkefninu Gefum íslensku séns.

Fleiri Íslendingar leggja verkefninu lið og má þar fremstan telja Hannes Stefánsson sem er óþreytandi að leiðbeina þeim sem langar til að læra íslenskt mál.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði SASS og Sveitarfélaginu Árborg.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinÞrjú verkefni hljóta samfélagsstyrk Krónunnar á Suðurlandi