Fjölmenni við vígslu nýbyggingar

Vígsluhátíð fyrir nýja viðbyggingu Flóaskóla var haldin síðdegis í dag að viðstöddu fjölmenni.

Elín Höskuldsdóttir, formaður fræðslunefndar Flóaskóla, Aðalsteinn Sveinsson, oddviti og Kristín Sigurðardóttir, skólastjóri fluttu ávörp áður en Kristín fékk lyklana að húsinu formlega afhenta.

Sr. Óskar H. Óskarsson blessaði svo nýbygginguna en á milli ávarpa fluttu nemendur skólans tónlistaratriði.

Að lokum var boðið upp á kaffiveitingar á meðan fólk gekk um ganga og skoðaði glæsilega nýbygginguna.

Viðbyggingin var tekin í notkun þegar skólastarf hófst í haust. Hún er um 1.000 fm og hófust framkvæmdir við hana fyrir rúmu ári síðan. Í húsinu er góð aðstaða fyrir list- og verkgreinar og aðstaða kennara batnar til muna. Framkvæmdum er ekki lokið innanhúss þar sem dúka vantar á gólf en því á að ljúka fyrir áramót.