Fjölmenni á hátíðarsamkomu á Selfossi

Fjölmenni var í skrúðgöngu og hátíðardagskrá í kjölfarið í bæjargarðinum á Selfossi eftir hádegi í dag. Þórhildur Ingvadóttir var fjallkona á Selfossi.

Skrúðgangan lagði upp frá Selfosskirkju með lögreglu, hestamenn og skáta í broddi fylkingar. Gengið var um bæinn og endað í bæjargarðinum í miðbænum.

Þar spilaði lúðrasveit Selfoss áður en fjallkonan, sem að þessu sinni var Þórhildur Ingvadóttir, flutti ljóð og íslenski fáninn var hylltur.

Haraldur Einarsson, alþingismaður frá Urriðafossi, flutti hátíðarávarp og síðan var boðið upp á fjölbreytt skemmtiatriði, bæði á sviðinu og víðsvegar um bæjargarðinn.

Skemmtuninni á Selfossi lýkur í kvöld með dansleikjum í bæjargarðinum og félagsheimili hestamanna. Auk þess býður Björgunarfélag Árborgar, sem er framkvæmdaraðili hátíðarinnar á Selfossi, upp á kvöldsiglingu á Ölfusá.

Þórhildur Ingvadóttir, fjallkona, ásamt lögreglumönnum sem stóðu heiðursvörð. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinÆgir gerði jafntefli á heimavelli
Næsta greinSundlaugin í Þorlákshöfn lokuð