Fjölgun „ryðfrírra“ asparklóna hafin

Óvenjumikið er nú um ryðsvepp á ösp í uppsveitum Suðurlands. Asparglytta og birkikemba halda áfram að breiðast út í landshlutanum en fjölgun „ryðfrírra“ aspar­klóna er hafin á Tumastöðum í Fljótshlíð.

Á höfuðdag, 29. ágúst, fóru þrír sér­fræð­ing­ar Skógræktarinnar á Mógilsá um skógar­skað­valda í könnunarferð um Suðurland. Þar kom í ljós að asparglytta og birkikemba eru að auka útbreiðslu sína en það sem mesta athygli vekur er þó óvenjumikið ryð í ösp víða í uppsveitum á Suðurlandi.

Aðeins eru tvö ár síðan síðasta slæma ryðsumar var á sömu slóðum en ryðið í ár er jafnvel enn verra en fyrir tveimur árum og því má búast við kali á komandi vetri. Einnig verða ryðaspir fyrir miklu vaxtartapi.

Lerki er millihýsill fyrir ryðið en í maí og júní dreifist smitefnið frá lerki yfir á blöð asparinnar og yfir sumarið dreifist það á milli aspartrjáa. Þar sem skaðleg áhrif ryðsins á vöxt alaskaaspar eru nú orðið vel þekkt er þess nú gætt að blanda lerki og ösp ekki saman í gróðursettum skógum.

Fyrir allmörgum árum var hafist handa á Mógilsá við að kynbæta alaskaösp með það fyrir augum að fá fram „ryðfría“ klóna. Nú virðist þetta kynbótaverkefni ætla að skila nokkrum klónum sem fá nánast ekkert ryð. Nýju, ryðþolnu klónarnir eru ekki á markaði enn sem komið er, en fjölgun þeirra er hafin á Tumastöðum í Fljótshlíð og vonir standa til þess að hægt verði að útvega gróðrarstöðvum græðlinga á næstu árum.

Nánar er greint frá þessu á heimasíðu Skógræktarinnar

Fyrri greinMeiri eldur en til stóð í gasgrilli
Næsta greinHópur fólks hyggst hreinsa strandlengjuna