Fjölgar um fjóra lögreglumenn í Árnessýslu

Nefnd þingmanna úr öllum flokkum hefur afhent innanríkisráðherra tillögur sínar um skiptingu 500 milljóna króna fjárveitingar til að efla löggæsluna í landinu. Björgvin G. Sigurðsson segir niðurstöðu nefndarinnar sérstaklega góða fyrir Vík, Árnessýslu og Vestmannaeyjar.

Efling löggæslu í landinu er í samræmi við ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á að efla löggæsluna og að niðurstaða í því átaki verði niðurstaða nefndar um löggæslumál sem nú hefur skilað tillögum um forgangsröðun verkefna.

„Niðurstaða nefndarinnar er að mínu mati mikið fagnaðarefni fyrir svæði utan höfuðborgarsvæðisins þar sem mikil þörf er á aukinni löggæslu og fjölgun lögreglumanna. Sérstaklega er niðurstaðan góð fyrir Vík, Árnessýslu og Vestmannaeyjar. Besta dæmið er að stöðum lögreglumanna fjölgar um fjórar í Árnessýslu, meðal annars með stöðu rannsóknarlögreglumanns,“ segir Björgvin G. Sigurðsson í samtali við sunnlenska.is, en hann var fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni.

„Nefndin vann hratt og vel og tel ég að skipting þessara 500 milljóna takist vel, hún er byggð á skýrslu frá því í fyrra og þeim áherslum sem barist var fyrir af bæði mér og þáverandi innanríkisráðherra við fjárlagagerðina fyrir liðið ár. Það er aukið fé til lögreglumála á landsbyggðinni,“ segir Björgvin ennfremur.

Auk Björgvins sátu í nefndinni þau Vilhjálmur Árnason formaður, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Svava Snæberg Hrafnkelsdóttir og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Nefndinni til aðstoðar var rekstrarteymi innanríkisráðuneytisins. Ráðherra hefur nú tillögurnar til skoðunar og verða þær kynntar á morgun, að því er segir á vef Innanríkisráðuneytisins.

Við skiptingu fjárins hafði nefndin að meginstefnu að fjölga lögreglumönnum, sérstaklega á landsbyggðinni, að auka akstur ökutækja lögregluembætta, þjálfunar- og búnaðarmál og mannauðsmál sem eru öll liður í því að auka öryggi almennings með eflingu löggæslu.

Fyrri greinFramrás bauð lægst í Meðallandsveg
Næsta greinBjarki Þór ráðinn vallarstjóri GOS