Fjölgar hratt í Hveragerði – Íbúar í GOGG orðnir 500

Hveragerðisbær. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir.

Íbúum á Suðurlandi fjölgaði um 214 frá síðustu áramótum til 1. júlí síðastliðins, eða um 0,9%. Þetta er hægari fjölgun en á síðasta ári þegar Sunnlendingum fjölgaði um 619, eða 2,6%, allt árið 2020.

Mesta tölulega fjölgunin frá áramótum er í Árborg en mesta hlutfallslega fjölgunin er í Hveragerðisbæ.

Íbúum Árborgar hefur fjölgað um 129, eða 1,2% og voru þeir 10.586 þann 1. júlí. Í Hveragerðisbæ hefur íbúum fjölgað um 86 frá áramótum, eða 3,1% og í Ölfusi hefur fjölgað um 46 manns, eða 1,9%. Einnig hefur orðið talsverð hlutfallsleg fjölgun í Grímsnes- og Grafningshreppi, þar sem íbúum hafði fjölgað um níu frá áramótum og voru 500 talsins þann 1. júlí. Það er 1,8% fjölgun.

Í Rangárþingi ytra hefur fjölgað um 19 íbúa frá áramótum eða 1,1% og einnig hefur fjölgað lítillega í Rangárþingi eystra og Hrunamannahreppi.

Fækkun í sex sveitarfélögum
Í sex sveitarfélögum á Suðurlandi hefur íbúum fækkað frá áramótum. Mesta tölulega fækkunin er í Skaftárhreppi en þar hefur fækkað um 23 íbúa, eða 3,7%. Mesta hlutfallslega fækkunin er í Ásahreppi þar sem fækkaði um 13 manns eða 4,8%. Fækkunin var á bilinu 1,2 til 1,8% í Mýrdalshreppi, Bláskógabyggð og Skeiða- og Gnúpverjahreppi en einnig varð lítilsháttar fækkun í Flóahreppi.

Íbúafjöldi sveitarfélaga á Suðurlandi 1. janúar 2021.
Breytingar á íbúafjölda frá 1. janúar til 1. júlí eru innan sviga:

Árborg 10.586 (+129)
Hveragerðisbær 2.863 (+86)
Sveitarfélagið Ölfus 2.415 (+46)
Rangárþing eystra 1.927 (+3)
Rangárþing ytra 1.758 (+19)
Bláskógabyggð 1.129 (-18)
Hrunamannahreppur 824 (+1)
Mýrdalshreppur 744 (-14)
Flóahreppur 686 (-4)
Skaftárhreppur 601 (-23)
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 582 (-7)
Grímsnes- og Grafningshreppur 500 (+9)
Ásahreppur 259 (-13)

Fyrri greinÚtlitið blátt en loftgæðin góð
Næsta greinSækja fótbrotna konu í Jökultungur