
Samkvæmt nýjustu tölum um íbúafjölda sveitarfélaga á landinu og þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar, hefur íbúum í Grímsnes- og Grafningshreppi fjölgað mest frá 1. desember 2024 til 1. ágúst 2025.
Á þessum tíma fjölgaði íbúum um 59 manns, sem samsvarar 9,7% aukningu.
„Þetta endurspeglar okkar upplifun. Sveitarstjórn hefur á undanförnum árum verið í miklum uppbyggingarfasa og lagt áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt úrval lóða,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, sveitarstjóri.
Einnig hefur skráning frístundahúsalóða tekið verulegt stökk í sumar. Í júlí voru 110 nýjar lóðir staðfestar í fasteignaskrá HMS, þar af 77 frístundalóðir. Flestar þessara lóða voru skráðar í Grímsnes- og Grafningshreppi, alls 24 lóðir, þar af 22 frístundalóðir.
Mikil uppbygging á Borg
Búið er að skipuleggja nýtt íbúðahverfi á Borg, þar sem sérstök áhersla er lögð á að byggðin tengist nærliggjandi þjónustukjarna á nýju miðsvæði og gott flæði verði milli innviðanna á svæðinu. Búið er að úthluta sex verslunar- og þjónustulóðum með blómlegri blöndu af verslun, þjónustu, gistingu, veitingarekstri og menningartengdri starfsemi. Tilbúnar til afhendingar eru fjórar einbýlishúsalóðir, tvær parhúsalóðir, tvær raðhúsalóðir og tvær fjölbýlishúsalóðir. Á heildina litið er gert ráð fyrir 79 lóðum með 160-220 íbúðum, þar sem gert er ráð fyrir sveigjanleika til að fjölga eða fækka íbúðum í rað- og fjölbýli, upp að vissu marki.
