„Þetta er á svipuðu róli og síðustu ár, kannski ívið fleiri í ár,“ segir sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur á Selfossi, um þann fjölda sem fékk aðstoð frá Sjóðnum góða fyrir þessi jól.
Hann segir að þrátt fyrir að fjölgunin sé ekki mikil sé ákveðinn hópur sem nái sér ekki á strik milli ára.
„Það er ákveðinn hópur sem er fastur í fátæktargildru og nær sér ekki upp vegna veikinda, örorku eða erfiðleika,“ segir Óskar og bætir við að það að leita sér aðstoðar sé þungt skref fyrir marga að taka. „Þess vegna viljum við að fólk komi í kirkjuna, þar sem þröskuldurinn er lægri og fyllsta trúnaðar er gætt.“
Fulltrúar félagsþjónustunnar í Sveitarfélaginu Árborg finna fyrir aukinni þörf fyrir aðstoð bæði hjá einstaklingum sem og fjölskyldum. Þetta segir Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, félagsmálastjóri Árborgar, en margir lögðu félagsþjónustunni lið fyrir jólin.
„Nú síðast barst okkur stór matargjöf frá Baldri Róbertssyni, fyrirtæki hans og félögum í mótorhjólaklúbbnum Utangarðsmönnum,“ segir Guðlaug sem vildi koma þökkum til þessara aðila. Einnig hafa félagasamtök gefið börnum góðar gjafir. Mótorhjólaklúbburinn Postularnir færði börnum gjafir með styrknum sem fólk fékk frá Sjóðnum góða.
Rauði krossinn leggur mest í Sjóðinn góða en framlag kemur einnig frá kirkjunni og félagasamtökum.