Fjöldi útkalla hjá björgunarsveitum

Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa haft í nógu að snúast í morgun við að hefta fok á þakplötum, og öðrum lausamunum. Veðrið er nú að mestu gengið niður sunnanlands.

Guðjón Guðmundsson, björgunarsveitarmaður á Eyrarbakka, sagði í samtali við sunnlenska.is að þar á bæ hafi menn haft nóg að gera og fjöldi útkalla hafi verið bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri, flest minniháttar, en óþægileg vinna uppi á þökum. „Mesta álagið var á milli klukkan níu og tíu í morgun, en það eru enn að tínast til verkefni,“ sagði Guðjón þegar sunnlenska.is ræddi við hann í hádeginu.

Um klukkan hálfellefu í morgun voru átján hópar björgunarsveitarmanna á ferðinni víða um Árnessýslu.

Á Selfossi losnuðu þakplötur og fleira víða um bæinn, meðal annars þurfti að hefta fok á plötum á þaki BYKO við Langholt.

Björgunarsveitir á Hellu og Hvolsvelli höfðu einnig í mörg horn að líta, meðal annars við að hefta fok á þakplötum á útihúsum. Á Skeiðum og í Grímsnesi urðu einnig foktjón og á Flúðum varð talsvert tjón á gróðurhúsum. Þar fuku plastgróðurhús á að minnsta kosti tveimur garðyrkjustöðvum auk þess sem gler brotnaði í glerjuðum gróðurhúsum.

Fyrri greinEyrarbakkavegur ófær vegna sandfoks
Næsta greinSandskaflar á veginum og klæðning farin að losna