Fjöldi sunnlenskra viðburða á fullveldisafmælinu

Í dag voru kynnt 100 verkefni sem verða á dagskrá aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Nokkur sunnlensk verkefni voru valin úr hópi 169 umsækjenda og fengu styrki frá afmælisnefndinni.

Verkefnin sem valin voru á dagskrána bera með sér hugmyndaauðgi og gefa mynd af öflugu menningar- og atvinnulífi í landinu. Verkefnin spanna allt litrófið; þau eru stór og umfangsmikil eða minni um sig, en öll styrkja þau ímynd þjóðarinnar sem sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar í samfélagi þjóðanna.

Listasafn Árnesinga fékk 900 þúsund króna styrk til þess að setja upp sýningu á verkum Halldórs Einarssonar og nokkrum verka núlifandi myndlistarmanna. Verk Halldórs skipa stóran hluta af safnkosti Listasafns Árnesinga en hann gaf safninu æviverk sitt ásamt álitlegri fjárupphæð sem varð til þess að ráðist var í byggingu safnahúss á Selfossi árið 1970.

Töfrahurð fékk 500 þúsund króna styrk til þess að semja tónlistarævintýri fyrir börn um fullveldissögu Íslands. Þórarinn Eldjárn rithöfundur ætlar að semja barnaljóð og sögur sem fjalla um börn á fullveldistíma, frá 1918–2018. Tónskáldin Elín Gunnlaugsdóttir og Steingrímur Þórhallsson semja nýja tónlist við ljóðatextana og verður leitast við að tónlistin endurspegli einnig að einhverju leyti tíðarandann. Dagskráin verður flutt í Hörpu með þátttöku Listdansskóla Íslands sem tengir saman sögurnar á sviði með hreyfingum og búningum.

Skógræktin fékk 400 þúsund króna styrk til verkefnisins Frá fræi til nytjaskógar á fullveldistíma. Laugarvatnsskógur er einn þjóðskóganna, sem Skógræktin hefur haft umsjón með allan fullveldistímann, til verndar og ræktar. Með þessu verkefni er efnt til samstarfs við Bláskógabyggð, leik-, grunn- og menntaskóla á Laugarvatni og heimafólk um skógardag fyrir almenning í Laugarvatnsskógi. Lesið verður úr ljóðum eða öðrum bókmenntaverkum, eldri og yngri, sem tengjast fullveldinu, veitt fræðsla um skóga og skógrækt, farið í skógargöngu með leiðsögn og gróðursett 100 úrvalstré í nýjan Fullveldislund. Þetta verða úrvalseintök af þeim tegundum sem best reynast í skógrækt á Íslandi og sett verður upp skilti með helstu staðreyndum um vöxt þessara tegunda, kolefnisbindingu, viðarnytjar og fleira.

Björn Bjarnason fékk 300 þúsund króna styrk til verkefnisins Fullveldið og hlíðin fríða. Verkefnið snýst um að lýsa tengslum rómantíkur og raunsæis í sjálfstæðisbaráttunni sem leiddi til fullveldis. Bjarni Thorarensen amtmaður fæddist á Hlíðarenda í Fljótshlíð, áhrif hans á Jónas Hallgrímsson skáld og aðra Fjölnismenn eru ótvíræð. Jónas heimsótti vin sinn sr. Tómas Sæmundsson, prófast á Breiðabólstað í Fljótshlíð, og orti síðan Gunnarshólma. Í Jónasi og sr. Tómasi mætast rómantík og raunsæi. Haldnir verða fjórir fyrirlestrar að Kvoslæk í Fljótshlíð sem fjalla um viðfangsefni verkefnisins.

Jón Ingi Gíslason fékk sömuleiðis 300 þúsund króna styrk vegna þriggja fyrirlestra og viðburða þar sem fjallað verður um Kóngsveginn og þau áhrif sem hann hafði. Kóngsvegurinn var gerður til að taka á móti Friðriki VIII sumarið 1907. Leiðin liggur frá Reykjavík um Mosfellssveit til Þingvalla, Laugarvatns, Geysis, Gullfoss um Hrunamannahrepp niður Þjórsárbakka og sem leið liggur um Hellisheiði til Reykjavíkur. Framkvæmdin var risavaxin jafnt efnahagslega sem félagslega og kostaði um 14% af landsframleiðslu þess tíma.

Kirkjubæjarstofa fékk 200 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Frá Kötlugosi að fullveldi 1918 þar sem sagt verður frá árinu 1918 í Skaftárhreppi. Það ár reyndi á íbúana á svo margan hátt, lítill heyfengur náðist um sumarið og um haustið gaus Katla og allt lífið mótaðist af þeim hamförum. Í kjölfar Kötlugoss fengu Íslendingar svo fullveldi og var það eins og vonarstjarna í myrkrinu. Markmiðið er að minnast þessara atburða og skilja áhrif þeirra á samfélagið í dag. Sett verður upp sýning og haldin Þakkarhátíð 1. desember þar sem verður hátíðardagskrá, fullveldisins minnst og þakkað fyrir að vegna margra ótrúlegra tilviljana fórst enginn í Kötlugosinu.

Bókasafnið í Hveragerði fékk einnig 200 þúsund króna styrk til þess að efna til menningardagskrár á fullveldisdaginn, 1. desember. Dagskráin verður með börnum og fyrir börn. Samstarf verður haft við Grunnskólann í Hveragerði og efnt til ritgerðasamkeppni sem tengist fullveldishugtakinu. 1. desember verður lesið úr völdum ritgerðum. Einnig verður efnt til samkeppni í myndmennt út frá fullveldishugtakinu. Opnuð verður sýning á úrvali verka í Listasafni Árnesinga og leitað eftir samstarfi við Tónlistarskóla Árnesinga um val á nemendum til að flytja tónlist við hæfi á menningardagskránni.

Þrátt fyrir að nú séu kynnt verkefni á dagskrá afmælisársins er enn hægt að taka þátt í dagskránni. Um miðjan desember verður opnað fyrir skráningu þátttökuverkefna á vef afmælisársins. Þau geta verið stór eða lítil, viðburðir eða samfélagsverkefni.

Nú þegar eru komin nokkur þátttökuverkefni á dagskrá afmælisársins, meðal annars verkefnið Umhverfis-Suðurland, sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga standa fyrir.

Fyrri greinMiðflokksfélag stofnað í Suðurkjördæmi
Næsta greinFyrsta HSK mótið í lyftingum fatlaðra