Fjöldi sunnlenskra fyrirtækja eru framúrskarandi

Alls eru 23 sunnlensk fyrirtæki á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki fyrir rekstrarárið 2015. Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar í Hörpu í vikunni.

Að þessu sinni fengu 682 fyrirtæki viðurkenningu eða um 2% af öllum skráðum fyrirtækjum á Íslandi. Framúrskarandi fyrirtækjum hefur fjölgað verulega en Creditinfo hefur birt lista framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010 en þá voru einungis 178 félög á listanum. Þessi fyrirtæki eiga það sammerkt að sýna stöðugleika í rekstri og eru líkleg til að efla hag hluthafa og fjárfesta.

Sunnlensku fyrirtækin eru eftirtalin: Í Ölfusi; Jarðefnaiðnaður ehf, Ísfélag Þorlákshafnar hf. og Eldhestar ehf. Í Hveragerði; Kjörís ehf. og Steingerði ehf., sem á og rekur fasteignir Kjöríss og fleiri fyrirtækja.

Á Selfossi; Jötunn vélar elf, JÁVERK ehf, Fossvélar ehf, Tölvu- og rafeindaþjónusta Suðurlands ehf, Set ehf, Stóra-Ármót ehf og Guðmundur Tyrfingsson ehf.

Í Bláskógabyggð; Gullfosskaffi ehf, Hótel Geysir ehf. og Gufuhlíð ehf, sem rekur samnefnda garðyrkjustöð í Reykholti. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi; Landstólpi ehf og verktakafyrirtækið Nesey ehf. Í Hrunamannahreppi; Ásgerði II ehf sem rekur loðdýrabú í Ásgerði 2.

Í Rangárþingi ytra; Hallgerður ehf, sem rekur Hótel Rangá og verktakafyrirtækið Þjótandi ehf.

Í Mýrdalshreppi; E.Guðmundsson ehf, sem rekur veitinga- og ferðaþjónustu í Vík, og Höfðabrekka ehf, sem rekur Hótel Kötlu á Höfðabrekku. Í Skaftárhreppi; Bær ehf, sem rekur Hótel Klaustur á Kirkjubæjarklaustri.

Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að vera skráð hlutafélög, hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára, ennfremur þurfa líkur á alvarlegum vanskilum að vera undir 0,5% og félögin þurfa sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þriggja ára. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð og eignir þurfa að vera 80 milljónir eða meira þrjú ár í röð.

Fyrri greinListamannaspjall með Eygló
Næsta greinBrúðkaup í Aratungu